SKFÍ stofnað 1982

Ríflega 40 ár eru síðan Sportkafarafélags Íslands var stofnað, en það varð til þegar nokkrir áhugakafarar efndu til fundar um úrbætur og jafnvel stofnun félags sportkafara. Auglýst var í fjölmiðlum að stofnfundur yrði haldinn þann 8. mars 1982. Stofnfundurinn var haldinn í Húsi Gunnars Ásgeirssonar við Vegmúla. Félag áhugamanna um sportköfun var stofnað og hlaut það nafnið Sportkafarafélag Reykjavíkur og var fyrsti formaður þess kjörin Jónas G. Jónasson. Þetta félag skildi opið öllu áhugafólki um köfun.

Kunnátta í köfun á þessum árum var ekki mikil í samanburði við þær kröfur sem til kafara eru gerðar í dag og fljótlega var hafin undirbúningur að sportköfunarnámskeiði á vegum félagsins. Námskeiðið fór af stað vorið 1982 og fékk það fádæma góða aðsókn eða 23 manns. Kennarar á námskeiðinu voru þeir Elías Jónsson og Eiríkur Beck, báðir atvinnukafarar.

Fljótlega var þörf fyrir loftpressu til áfyllingar á loftkútum félagsmanna. Sú fyrsta var keypt árið 1984 og var hún stór, gömul og í ólagi, og skyldi hún gerð upp. Fljótlega fékk hún viðurnefnið „Barbara“ því að alltaf átti BARA eftir að gera við smáatriði til að hún kæmist í gagnið. Úr því varð þó aldrei og var hún seld eftir mikla yfirlegu félagsmanna og viðgerðir.

Önnur pressa félagsins var keypt ný þann 7. maí 1986. Hún var lítil og meðfærileg og dældi hún lofti af miklu örlæti til félagsmanna. Tilkoma pressunnar skapaði ákveðin miðpunkt sem félagið vann útfrá lengi vel og voru húshorn við Langholtsskóla fyrsti samastaður pressukvöldanna.

Árið 1990 fékk félagið bráðabirgðahúsnæði í Straumsvík og myndaðist þar fyrsti vísir að því sem koma skyldi, notalegt umhverfi og góður félagsskapur þar sem skrafað er , drukkið kaffi eða aðrar veitingar og loft hlaðið á loftkúta.

Önnur pressa félagsins gafst upp sumarið 1991 og hafði hún þá skilað af sér upphæð sem dugði til endurnýjunar og meira til.

Árið 1987 var ákveðið að fara í að reisa félagsheimili Sportkafarafélags Íslands. Keypt var notað timbur frá trésmiðjunni Völundi sem þá var verið að rífa og síðan hófst leit að stað. Fleiri en einn staður komu til greina en erfitt var að fá leyfi hjá viðkomandi yfirvöldum.

Árið 1989 fékkst fjárstyrkur frá borgaryfirvöldum og félaginu veitt leyfi til að reisa sér hús í Nauthólsvík og bygging félagsheimilisins hófst. Húsnæðið var tekið í notkun 1994 og hefur verið viðhaldið af natni síðan.

Félagið á tvær öflugar pressur fyrir loftkúta. Hægt er að pressa bæði loft og loft með auknu hlutfalli súrefnis, Nitrox,  upp í 40%. Auk þess á félagið öfluga ferðapressu fyrir loft. Pressukvöld eru haldin á hverju fimmtudagskvöldi eins og hefð er frá árinu 1986. Pressukvöld fellur niður ef aðfangadagur, jóladagur, gamlársdagur eða nýjársdagur lendir á fimmtudegi. Aðra helgidaga er alla jafna opið nema ef annað er auglýst á miðlum félagsins.

Árið 2022 varð ljóst að húsnæði félagsins í Nauthólsvíkinni þyrfti að víkja fyrir Borgarlínu. Samningaviðræður hófust við Reykjavíkurborg um lóð en starfsfólk borgarinnar gat ekki lofað nema stöðuleyfi í óákveðinn tíma. Árið 2024 voru þreyfingar í gangi um samstarf við Siglingaklúbbinn Þyt um afnot af aðstöðu þeirra til þriggja ára með mögulegan samruna félaganna í huga. Það slitnaði upp úr þeim viðræðum þar sem stjórnir félaganna náðu ekki saman í öllum mikilvægum atriðum. Ákveðið var því að flytja húsnæðið á þá lóð sem Reykjavíkurborg gaf vilyrði fyrir og er bara nokkrum tuga metra frá Nauthólsvegi 100a.

Upphaflega átti að flytja húsnæðið fyrir 1. maí 2025. Reykjavíkurborg styrkir flutninginn auk þess að greiða tengingu rafmagns og vatns fyrir húsið. Einnig styrkir Betri samgöngur (Borgarlínan) flutninginn.

Samið var við verktakana sem sjá um brúarsmíðina um að grafa og skipta um jarðveg fyrir undirstöður hússins gegn aðgengi starfsmanna að kaffistofu og salerni í húsnæði félagsins á meðan á framkvæmdum við Borgarlínu stendur.

21. ágúst 2025 var húsnæði félagsins flutt á nýjan stað í Nauthólsvíkinni. Í framhaldi var félagsheimilið málað að utan af félagsfólki. Steyptur var pallur undir gám sem pressurnar eru í. Frekari framkvæmdir við standsetningu eru fyrirhugaðar meðal annars pallur í kringum húsið. Allar breytingar á húsinu miða að því að auka aðgengi fatlaðra að félagsheimilinu.

Sportkafarafélag Íslands hefur skipulagt og haldið köfunarferðir fyrir félagsmenn frá upphafi og gefið út dagskrár þess efnis. Þátttakan hefur verið allajafna verið góð. Margar ferðir hafa verið farnar þar sem nálægt helmingur félagsmanna hefur tekið þátt í og reglulega eru farnar lengri ferðir þar sem gist hefur verið í nokkra daga.

Dagskrá mánaðarlegra fræðslufunda hefur verið fjölbreytt og hefur byggst upp á skemmti- og fræðsluefni auk þess sem mál málanna eru rædd. Hafa bæði innlendir og erlendir gestir verið með fyrirlestra um haftengda starfsemi, heilsu-og öryggistengt efni. Fræðsludagskrá hefur verið vel sótt af félagsmönnum. 

Sportkafarafélagið stendur ekki fyrir köfunarkennslu á vegum félagsins. Starfandi köfunarkennarar eru félagar í SKFÍ og margir þeirra nemenda hafa gengið í félagið og fengið köfunarreynslu með nýliðastarfi reyndari kafara félagsins.

Nýliðastarf félagsmanna felst í því að aðstoða nýja kafara við undirbúning og köfun og kynna fyrir þeim fyrir helstu köfunarstaði á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess eru nýliðar hvattir til að taka þátt í ferðum og annarri starfsemi félagsins.

Félagið hefur lagað sig að þeim kröfum og reglum sem til sportköfunar eru gerðar víða um heim. Í dag stendur félagið fyllilega jafnfætis öðrum sambærilegum félögum erlendis og jafnvel betur en mörg hver.

Sportkafarafélag Íslands stendur öllu áhugafólki um köfun opið og eru félagarnir úr öllum stéttum þjóðfélagsins. Skráðir félagar hafa verið á bilinu 50 til 60 á ári hverju. Sumir staldra stutt við og eru félagar í eitt eða tvö ár en aðrir hafa verið félagar til langs tíma og jafnvel frá upphafi. Flestir eru félagarnir á aldrinum 30 til 65 ára. Félagar yngri en 18 ára þurfa leyfi foreðldra eða forráðafólks til að ganga í félagið.

Kafarar sem fengið hafa köfunarréttindi sín á ferðalagi erlendis eru sérstaklega hvattir til þess að kynna sér starfsemina. Reyndir kafarar taka vel á móti þeim sem vilja víkka út köfunarreynsluna og kafa hér á landi líka. Sumir köfunarskólar félagsfólks leigja út búnað til þeirra sem taka þurrgallanámskeið hjá þeim.