Köfunarveiki

Mynd af baki manns sem er með köfunarveiki. Húðin verður eins og marmari,

Köfunarveikin getur versnað hratt eftir að fyrstu einkenni koma fram og því er mikilvægt að hafa strax samband við 112 eða Landspítala s. 543 1000 og biðja um vakthafandi köfunarlækni sem leiðbeinir um framhaldið.

Köfunarveiki er skipt í tvo flokka, köfunarveiki 1 (e. decompression sickness) og köfunarveiki 2 (e. decompression illness). Áður en hægt er að skýra út hvernig köfunarveiki kemur til þarf að skoða hegðun lofttegunda. Þessi grein er ekki tæmandi um orsakir og einkenni köfunarveiki heldur lítil samantekt á mannamáli. 

Helstu einkenni köfunarveiki

  • Litabreyting á húð – húðin verður eins og marmari.
  • Verkir í liðum og vöðvum (oft kallað „bends“)
  • Doði eða náladofi
  • Lömun eða vöðvaslappleiki
  • Svimi og jafnvægisleysi
  • Öndunarerfiðleikar
  • Brjóstverkir
  • Meðvitundarskerðing eða meðvitundarleysi
  • Blóðfroða í munni
  • Í alvarlegri tilvikum: hjartaáfall eða heilablóðfall


Köfunarveikin getur versnað hratt eftir að fyrstu einkenni koma fram og því er mikilvægt að hafa strax samband við 112 eða Landspítala s. 543 1000 og biðja um vakthafandi köfunarlækni sem leiðbeinir um framhaldið.

Fyrsta hjálp

  • Hringið í 112 ef ekki er tryggt að 112 ræsi úr köfunarlækna hringið þá sjálf í 543-1000 og biðjið um að teymi afþrýstiklefans sé tiltækt
  • Hefjið tafarlaus súrefnisgjöf (100% eða hæsta nitrox sem er á svæðinu)
  • Fylgjast með lífsmörkum
  • Hvíld – gott að hafa fætur í hærri stöðu en höfuð

Sérhæfð hjálp

Sérhæfðri hjálp er stjórnað af köfunarlækni og fer alla jafna fram í afþrýstiklefa.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Ef kafarinn fer hægt og rólega upp á yfirborðið þá nær líkaminn að „afgasa“ á leiðinni upp og heldur svo áfram að afgasa þegar upp á yfirborð er komið í gegnum útöndun og húðina.

Regla númer 1 er því rólegt uppstig með öryggisstoppi í 3 mínútur á 5 metrum. Halda svo áfram mjög rólega upp á yfirborðið af 5 metrunum. 

Fólk getur fengið köfunarveiki þótt öllum ferlum sé fylgt. Orsakir geta verið:

  • Endurteknar kafanir á sama degi eða marga daga í röð
  • Of hratt uppstig í lok köfunar
  • Undirliggjandi sjúkdómar eða veikindi
  • Óþekktar ástæður

Til kafarans

Það er ekkert sem heitir að harka af sér eða bíða og sjá. Ef þú hefur grun um að þú sért með köfunarveiki þá þarftu að grípa til aðgerða.

Köfunarveiki er í flestum tilvikum meðhöndlanleg en getur verið lífshættuleg ef ekkert er að gert. Hún getur líka verið lífshættuleg þótt viðkomandi fái viðeigandi læknismeðferð.

Þú þarft að hafa tafarlaust samband við köfunarlækni sem metur ástandið og kemur þér í viðeigandi meðferð ef með þarf.

Köfunarveiki er í mörgum tilvikum meðhöndluð með innöndun á hreinu súrefni og í afþrýstiklefa. Meðferðin getur verið mjög kostnaðarsöm og því mælir sú sem þetta skrifar með því að kafarar séu alltaf með gilda köfunartryggingu þegar þeir kafa í útlöndum. Alltaf hafa númer tryggingarinnar tiltækt. Það er hægt að setja það á límmiða á bakhliðina á köfunartölvunni. Láttu félagana vita hvar þú ert með númerið á tyggingunni.

Stærsta tryggingarfélag kafara í Evrópu er DAN Europe. 

Tryggingar íslenskra tryggingarfélaga ná alla jafna ekki yfir jaðarsport eins og köfun.

Loft undir yfirborðinu

Á yfirborði erum við undir þrýstingi sem er um 1 bar. Fyrir hverja 10 metra sem kafað er niður bætist við 1 bar.  Þannig er er þrýstingurinn 2 bör á 10 metra dýpi, 3 bör á 20 metra dýpi og svo framvegis.

Í veðurfræði er notuð einingin millibar fyrir loftþrýsting. Lægð getur verið 988 millibör og hæð 1.022 millibör, 0,988 bör eða 1,022 bör. En í köfun dugar að námunda yfirborðsþrýsting við 1 bar eða 1000 millibör. 

Andrúmsloftið er samansett af eftirfarandi gastegundum:

  • Nitri (N₂) ~78,08%
  • Súrefni (O₂) ~20,95%
  • Argon (Ar) ~0,93%
  • Koldíoxíð (CO₂) ~0,04% (fer eftir svæðum og árstíma)
  • Öðrum gastegundum (neon, helín, metan, krypton, vetni, og fleiru) <0,01% samtals

Í köfun er nægilega nákvæmt að segja að loftið sem við pressum inn á kútana og öndum svo að okkur sé um 21% súrefni og 79% nitur. Snefilefnin eru svo lítill hluti að þau teljast ekki með í útreikningum í köfun.

Við köfun undir þrýstingi getum við ekki losað okkur við niturhlutann og hann safnast saman í líkamanum. Því lengur sem við köfum því meira safnast og því dýpra sem við köfum því meira safnast. Hámarks köfunartími sportkafara er miðaður út frá þessari mettun. Gas sem er undir þrýstingi þjappast saman en þegar þrýstingnum léttir þá þenst það aftur út, að öllu öðru óbreyttu. Gasið safnast fyrir í vöðvum og vefjum líkamans þegar við köfum.

Í einföldustu mynd má segja að ef kafarinn fer of hratt upp á yfirborð úr köfuninni þá eru gasbólurnar að þenjast út á leiðinni upp út af því að þrýstingurinn er að minnka.