Að plana köfunina og kafa planið er eitt af undirstöðuatriðum í köfun. Þessari einföldu reglu getur verið nokkuð snúið að fylgja. Hér koma nokkur góð ráð sem hjálpa þér að plana köfunina og kafa planið.
Köfunarplan dregur úr hættunni á því því að eitthvað fari úrskeiðis í í köfun. Atvik geta verið að ýmsum toga og mis alvarleg.
Einfalt köfunarplan þarf ekki að vera flókið og krefst ekki mikils skipulags.
Dæmi:
- Hvert á að kafa.
- Hvernig á að fara ofaní og uppúr.
- Hvaða leið á að fara í köfuninni.
- Á hvaða dýpi á að fara.
- Hvað á köfunin að vara lengi.
- Hverjir kafa tveir saman.
- Ef það eru fleiri en eitt par af köfurum, hvaða teymi kafa saman.
- Hver leiðir köfunina.
- Hvað á að gera ef kafari verður viðskila.
- Hver stýrir spjalli eftir köfun og hvar fer það fram.
Ítarlegri umfjöllun
Köfun er félaga-sport og eins og í öðru félagasporti þá er betra að allir viti hvert planið er áður en lagt er af stað.
Það dytti engum í hug að skipuleggja 10 km hlaup bara með rás og endamarki. Það þarf að ákveða leiðina sem á að hlaupa og setja upp vörður með vatnspóstum og vera með plan um hvað skal gera ef einhver meiðist í hlaupinu.
Það sama á við um köfun. Það er ekki nóg að planið sé að fara ofaní og uppúr. Það þarf að ákveða leiðina og vera með plan um hvað eigi að gera ef einhver verður viðskilja við hópinn og/eða ef köfunaróhapp á sér stað. Planið þarf að vera einfallt í framkvæmd.
Köfunarplan þarf að vera mis ýtarlegt. Það fer bæði eftir því hvort kafarar þekkja staðhætti og vita nákvæmlega um hvað er verið að tala en líka eftir áhættunni sem felst í köfuninni. Þannig þurfa til dæmis tæknikafarar að gera ítarlegt plan um uppstig á meðan sportkafarar hafa einungis 3 mínútna valkvætt stopp á 5 metrum.
Köfunarplanið er ramminn að því sem við ætlum að gera í köfuninni og ef eitthvað er óljóst í planinu eða óásættanlegt vegna áhættu þá er mikilvægt að kafarar ræði það áður en köfunin hefst og breyti þá köfunarplaninu til þess að setja hvorki sjálfa sig né aðra í hættu.
„Hvað ef“ – getur verið partur af upprunalegu köfunarplani.
Ýmis „Hvað ef“ eru nokkuð fyrirsjáanleg í köfun. Eitt þeirra hefur að gera með straum.
Það er mögulegt að við þurfum að breyta frá upphaflega köfunarplaninu ef straumur er meiri en við áttum von á. Ef við gerum ráð fyrir því í upphaflegu plani þá er hægt að bæta því þar inn. Planið er leið A til B og frá B til C og til baka í A en ef straumur er mikill þá sleppum við B og förum beint í C og það er X sem tekur ákvörðun um það niðri.
Það er líka mögulegt að við þurfum að breyta planinu að ófyrirséðum ástæðum. Þegar það er gert þarf að ræða um breytingarnar eftir að köfun lýkur.
- Hvað olli breytingunum.
- Skildu allir þörfina fyrir breytingunni
- Hefði eitthvað mátt betur fara.
- Hvernig viljum við gera þetta næst ef við lendum í svipuðum aðstæðum.
Spjall eftir köfun hjálpar okkur að læra bæði af því sem vel var gert og af því sem betur mátti fara. Það styrkir góða köfunarmenningu og stuðlar að trausti í hópnum.
Það er mikilvægt að allir geti komið með innlegg í umræðuna og þá nýliðar sérstaklega. Leitum ekki að sökudólgum en verum óhrædd við að benda á það sem var vel gert og það sem mætti betur fara.
Með þessari nálgun byggjum við upp þekkingu sem gerir okkur að betri köfurum og að betra köfunarsamfélagi.