Kaup á búnaði

Öndunarbúnaður


Það getur verið snúið að kaupa köfunarbúnað. Fjöldinn allur af merkjum er til og hægt er að kaupa bæði nýjan og notaðan búnað.Það sem er gott að hafa í huga er að búnaðurinn þarf að passa og vera nothæfur við þær aðstæður sem á að nota hann í.

Nýliðinn

Þegar keyptur er köfunarbúnaður í fyrsta sinn er gott að ráðfæra sig ekki eingöngu við sölumanninn heldur líka við reyndari kafara. 

Margir reyndir kafarar þekkja kosti og galla búnaðar og þekkja hvort búnaður henti til dæmis við íslenskar aðstæður ef ætlunin er að kafa hér heima.

Eins þekkja reyndari kafarar hvort það sé hægt að fá þjónustu á búnaðinn ef með þarf.

Kaup á búnaði sem hentar ekki og enginn þjónustar er ekki góð fjárfesting. 

Nýtt eða notað?

Það getur verið ágætis fjárfesting að kaupa notaðanköfunarbúnað ef búnaðurinn er vel með farinn og passar viðkomandi vel. Það þarf samt að varast að kaupa búnaðinn bara af því að hann er ódýrari.

Á Facebook síðum fyrir sölu á notuðum köfunarbúnaði má oft gera mjög góð kaup á köfunarbúnaði. Þar er líka að finna drasl sem fólk er að reyna að losa sig við. Það er því gott að ráðfæra sig við reynda kafara ef nýliðar ætla að kaupa notaðan búnað á slíkum síðum. 

Öndunarbúnaður

Helsti búnaður

Öndunarbúnaður - Regulator

Það mikilvægasta við kaup á öndunarbúnaði er að huga að því hvort búnaðurinn henti fyrir íslenskar aðstæður. 

Margir hafa flaskað á því að kaupa ódýrari búnað í útlöndum en ekki áttað sig á að sá búnaður er einungis fyrir köfun í heitari sjó en er við Ísland. Athugaðu að merki öndunarbúnaðs getur verið það sama en annað er fyrir heitan sjó og hitt er fyrir kaldan sjó og því er verðmunur töluverður. 

Búnaðurinn þarf að vera „frostþolinn“, eða að þola helst núll gráðu sjávarhita. 

Það er gott að hafa í huga að búnaðinn þarf að þjónusta reglulega. Mikilvægt er að þjónustuaðilar séu hér á landi fyrir þann búnað sem þú ætlar að kaupa.

Hér á landi eru viðurkenndir þjónustuaðilar fyrir þessi köfunarmerki:

  • Apeks
  • Aqualung
  • Poseidon
  • Scubapro

Ef þú þekkir viðurkennda aðila sem eru að þjónusta önnur merki þá máttu senda okkur línu og við bætum merkinu hér við. 

Köfunargalli

Þurrgalli er einn dýrasti einstaki hluturinn sem þú kaupir fyrir sportköfun. Góður galli getur kostað upp undir hálfa milljón. (Árið 2025 þegar þetta er skrifað). Þú getur huggað þig við það að gallinn getur enst þér í fjölda ára ef þú ferð vel með hann. 

Við kaup á galla þarf að hafa í huga að gallinn þarf að passa.

Ef keyptur er nýr galli getur sérsaumaður galli verið mun betri kaup en galli í staðlaðri stærð ef staðlaða stærðin hentar bara næstum því en ekki alveg. Oft munar aðeins í kostnaði en þeim fjármunum er vel varið. 

Mikilvægt er að lengdin passi vel, skór/sokkar séu mátulegir og að þú getir hreyft þig í kafi án þess að gallinn hindri hreyfingarnar.

Gallar koma ýmist með sokk og þá skó sem farið er í utanyfir eða með áföstum stígvélum. Skóbúnaður þarf að passa. – Þú labbar ekki á Esjuna í allt of stórum eða of litlum skóm, nema kannski einu sinni og þú kafar ekki í galla sem passar ekki.

Ef keyptur er notaður galli þá þarf að ganga úr skugga um að hann passi og leki ekki. Gallar geta farið að leka með tímanum og þá eru þeir oft settir á sölusíður. En gallar eru líka settir á sölusíður ef viðkomandi er annaðhvort hættur að kafa eða er að kaupa annan galla af öðrum ástæðum. 

Efni í göllum

Efni galla er oftast skipt upp í þessa þrjá flokka:

  • Neoprene
  • Cordura
  • Triliminate 

Gallarnir hafa allir sína kosti og galla. 

Áður en þú kaupir galla er því gott að ræða við félagana um hvaða galli myndi henta fyrir þig. 

BCD - Köfunarflotvesti

Köfunarvesti er líklega sá búnaður sem auðveldast er að kaupa notaðan. Það þarf samt að hafa í huga að vestið þarf að passa á þig og passa fyrir það sem þú ert að fara að gera í köfun.

Mismunandi gerðir eru til og eru þetta þær helstu:

  • Köfunarvesti (BCD jacket)
  • Bakblöðruvesti (BCD wing)
  • Sidemountvesti 

Við kaup á vesti þarf að skoða lyftigetu vestisins út frá því blýi sem þú ert með við köfun. 

Það er gott að skoða hvort það sé hægt að setja blý í vestið ef þú vilt sleppa því að hafa blýbelti. 

Það er líka gott að skoða hvernig „inflator“ er á vestinu og á hvaða stöðum er hægt að hleypa lofti út.

Ef keypt er notað vesti þá þarf vestið að passa á þig og inflatorinn þarf að virka og vestið má ekki vera með gati á eða leka. 

Það er mögulegt að það þurfi að þjónusta innstreymislokann (inflator) og skipta um O-hringi í honum eða jafnvel skipta honum út á nokkurra ára fresti. 

Fit

Fit koma nánast í öllum stærðum og gerðum. 

Þegar keypt eru fit þá þurfa þau að passa á þann skóbúnað sem er á gallanum þínum.

Það er ekki víst að sömu fitin passi á skóbúnað á þurrgallanum þínum og á blautgalla ef þú ætlar að kafa í heitum sjó.

Helstu tegundir af fitum:

  • Gúmmífit
  • Plastfit
  • Heil fit
  • Split fit

Mælt er með gúmmífitum hér á landi þar sem plastið verður alla jafna mjög hart og ósveigjanlegt í köldum sjó.

Split fit henta ekki fyrir „frog kick“ og því nota þau sem eru lengra komin sjaldan slík fit en þau geta verið ágæt í straumi ef það þarf að synda rösklega. Það er mikið af þessum fitum til sölu og ekki af ástæðulausu. 

Helstu festingar á fitum:

  • Gúmmí bönd – strappar
  • Gormar

Kostir við gorma eru að auðvelt er að setja fitin á sig og ekkert þarf að stilla eins og með strappa sem eru settir lausir yfir hæl og síðan hert að eftir þörfum. 

Gríma

Gríma þarf að falla vel að andlitinu og passa vel. 

Hér á landi er best að vera með grímur sem eru með silicon kanti í kringum andlitið en ekki plastkannti þar sem silikonið er betra í köldum sjó. 

Þegar gríma er mátuð er gott að setja hana upp að andlitinu án þess að vera með teygjuna yfir höfuðið og sjúga upp í nefið. Ef gríman helst á andlitinu þá er það merki um að hún passi. 

Sumar grímur er hægt að fá með sérsniðnu sjóngleri og aðrar er hægt að fá með styrkingu eins og lesgleraugu.

Grímur með sérsniðnu sjóngleri geta verið mjög dýrar og mikilvægt að passa að ekki bara glerið passi heldur gríman sjálf líka. Það getur því verið nauðsynlegt að máta þannig grímu áður en hún er keypt. 

Grímur með lesgleraugna styrkingu geta verið mis dýrar og þá fer það svolítið eftir því hvort skipt er um allt glerið eða hvort sett er styrking á hálft glerið með svo kölluðum „dropa“ sem er límdur inn á gler grímunnar. 

Það er ekki sjálfgefið að grímur sem eru seldar á ferðamannastöðum við ströndina henti fyrir köfun. Glerið í sumum grímum þolir ekki þrýsting niðri á dýpi. 

Við kaup á notaðri grímu er gott að skoða hvort strappinn sem heldur grímunni á hausnum sé nokkuð farinn að slitna mikið og hvort kanntar séu heilir þannig að gríman leki ekki. 

Hetta

Hér á landi er gott að vera með 7 – 10 mm hettu.

Mikilvægt að hettan passi og að hún sé ekki of þröng og ekki of víð. Andlitsopið  á hettunni þarf að vera nægilega stórt til þess að þú getir smeigt kanntinum á grímunni undir. Kannturinn á hettuopinu má ekki ýta grímunni niður. 

Hettur sem hafa rennilás að aftan er alla janfa auðveldara að komast í en það getur verið erfitt að renna þeim sérstaklega þegar þú ert með þykka hanska. 

Við kaup á notaðri hettu þarf að hafa í huga að hettur missa einangrunina með tímanum og því er nauðsynlegt að endurnýja þær á nokkurra ára fresti. Það er ekkert að því að kaupa lítið notaða hettu. 

Hanskar

Valið stendur á milli þurrhansa eða blauthanska. 

Blauthanskar eru neopren hanskar og mælt er með að hanskarnir séu 7 -10 mm að þykkt nema að þú þolir kulda vel og þá er hægt að vera með 5 mm hanska. 

Mikilvægt er að hanskarnir passi vel og séu hæfilega þröngir en ekki of þröngir því þá veita þeir mestu vörnina gegn kulda. 

Notaðir blauthanskar geta verið góð kaup en ef hanskarnir eru gamlir og mikið notaðir þá hafa þeir líklega tapað töluverðri einangrun. 

Þurrhanskar

Það er mögulegt að fá þurrhanskakerfi á flesta galla en kerfið er alla jafna í standard stærð og hentar því ekki vel fyrir „stórar hendur“.

Þurrhanskakerfin eru til í nokkrum köfunarmerkjum og kerfin er ýmist hægt að festa á sjálfur eða láta festa á gallann. 

Fyrir þessi kerfi er hægt að nota hefðbundna fingravettlinga eða sérstaka hitahanska innanundir þurrhanskann sjálfan sem er gúmmíhanski. (Sérstakur þykkari gúmmíhanski ekki uppþvottahanski þótt það sé hægt að notast við í neyð).

Þegar þurrvettlingar eru keyptir þarf að passa að kaupa bæði stykkið sem fer á gallann og líka stykkið sem fer á hanskana. Það er ekki nóg að kaupa bara hanskahlutann.

Hafið í huga að búnaðurinn er oft seldur í tveimur eða þremur hlutum:

  • Galla stykkið
  • Hanska stykkið (með eða án hanska)
  • Hanskar (innanundir/utayfir)
Köfunarljós

Köfunarljós eru hluti af staðalbúnaði fyrir köfun á Íslandi. 

Erlendis þarf ekki endilega að hafa ljós í köfun en hér er það eiginlega alveg nauðsynlegt þar sem skyggnið er minna. 

Gott er að eiga tvö ljós. Eitt aðalljós og annað til vara. Ljósin eru bæði tekin með í köfun. 

Varaljósið getur verið minna en aðalljósið eða þau geta verið bæði að sömu stærð en það fer eftir styrk þeirra.

Þegar ljós er keypt er mikilvægt að skoða á hvaða dýpi það virkar. Ljós þurfa að minnsta kosti að virka niður á 30 metra. 

Ef keypt er notað ljós þarf að hafa í huga að það virki. Athuga þarf hvort O-hringir séu heilir.

Baujur, kefli og annað smádót

Það er öryggisatriði að kafa alltaf með bauju og kefli (reel) á sér þegar kafað er. 

Baujur og reel koma í mismunandi stærðum og það er líka mismunandi hvort þær séu uppblásanlegar í kafi eða svo kallaðar yfirborðsbaujur sem þú blæst í uppi á yfirborði.

Reel kemur með mismunandi langri línu en gott er að miða reel við að 30 metra eða lengra ef þú ert í dýpri köfunum. 

Það er smekksatriði hvernig baujur kafarar velja. Eina krafan er að þær séu nægilega stórar til þess að þú getir gert vart við þig á yfirborðinu ef með þarf. 

Litur á baujum. 

Í sportköfun skiptir litur á bauju ekki máli. 

Í tækniköfun skiptir litur máli og því eru tæknikafarar með eina gula bauju og eina appelsínugula bauju. 

Hnífur, línuskeri, skæri flauta.

Hnífur, línuskeri, skæri og flauta eru hlutir sem margir kafarar kafa ekki án. 

Þetta eru lítið notaðir hlutir í kafi en geta verið mjög mikilvæg öryggistól. 

Myndavélabúnaður

Mælt er með að nýliðar nái góðum tökum á flotjafnvægi og nái sér í köfunarreynslu áður en þeir bæta myndavélinni við.

Góðar byrjunarvélar eru GoPro eða aðrar smávélar. 

Ef þú vilt taka meira krefjandi ljósmyndir þarftu að skoða hvaða neðansjávarhús eru í boði fyrir þína myndavél.

Það er svona nánast þumalputtaregla að húsið utan um vélina kostar það sama og myndavélin, jafnvel aðeins meira.

Þegar þú ert með stærri vél og hús þarftu að vera með „bracket“ undir vélina sem er hægt að festa á ljós. Svo viltu fá nokkrar góðar linsur og annan búnað sem er ekki mjög vinarlegur við kreditkortið. 

Eins og maðurinn sagði:
„Ég ætla bara að vona að konan mín selji ekki myndavélabúnaðinn þegar ég dey, á því verði sem ég sagði henni að hann kostaði.“