Köfunarstaðir
Fjöldi köfunarstaða er við Íslands og þessi listi er langt frá því að vera tæmandi. Ef þú vilt koma upplýsingum á framfæri varðandi áhugaverða köfuarstaði getur þú sent tölvupóst á stjorn@kofun.is .
Hvar viltu kafa?
Dýpi: 90-100+ metrar.
Köfunarréttindi: Tækniköfunarréttindi 90+. metrar, Trimix eða Rebreather. Umtalsverð reynsla af krefjandi djúpköfunum.
Bandarískt herskip sem sökkt var í Faxaflóa 30. janúar 1942.
Síðast var vitað um ferðir skipsins á um 63° 35′ N, 21° 50′ W. Nokkrir félagar eiga nákvæma staðsetningu auk þess sem Landhelgisgæslan hefur nákvæma staðsetningu.
Mjög krefjandi.
Hentar reyndari tækniköfurum.
Dýpi: 18-20 metrar.
Köfunarréttindi: Open Water.
Bjarnargjá er blönduð ferskvatns og saltvatnsgjá. Gjáin er frekar þröng en þó geta tveir kafarar kafað hlið við hlið í henni.
Það gruggast auðveldlega upp í gjánni og því er hún tilvalinn æfingarstaður fyrir flotjafnvægi og fótatök þegar markmiðið er að grugga sem minnst.
Gjáin er frekar stutt og til endanna eru litlir hellisskútar sem heilla en mælt er með því að byrjendur kafi ekki inn í þá.
Í gjánni er lítill bátur, Ramóna, sem notaður var sem leikmynd í kvikmynd. Ákveðið var að loknum tökum að fá leyfi til að skilja bátinn eftir þarna þar sem hann nýtist köfurum til æfinga og er skemmtilegt myndefni.
Til að komast í Bjarnargjá er ekið í átt að Grindavík og áður en komið er inn í bæinn er beygt út af á veg 425 Nesveg. Beygt er útaf á vegaslóða sem liggur vinstra megin við veginn þegar þessi leið er farin. Við gjánna má sjá leifar af dælustöð fyrir fiskeldisstöð sem var í rekstri fyrir tugum ára. Leiðin er fólksbílafær ef farið er rólega.
Góður staður fyrir byrjendur og lengra komna.
Dýpi: 20 metrar.
Köfunarréttindi: Advanced Open Water.
Flak norska gufudamparans Bláhval sem var sökkt norðan við sandgerðisbótina á Akureyri á árunum 1930-1940.
Nánari lýsingu vantar. Ef þú hefur upplýsingar um þennan köfunarstað máttu senda hana á stjorn@kofun.is.
Dýpi: 3-30 metrar.
Köfunarréttindi: Open Water / Advanced Open Water.
Davíðsgjá er samheiti á nokkrum gjám sem liggja mismunandi langt frá landi frá Hallvíkinni í Þingvallavatni
„Litla Davíðsgjá“ liggur frá landi og er tilvalin köfunarstaður fyrir byrjendur.
Stærri gjárnar liggja lengra úti í vatninu og það tekur um 8 mínútur að kafa þangað frá landi sé kafað rólega. Stærri gjárnar eru mun dýpri og ef ætlunin er að kafa niður fyrir 18 metra þá þarf Advanced Open Water réttindi.
Lína sem hægt er að fylgja liggur frá landi og út í stóru gjárnar. Byrjendum er ráðlegt að fara með reyndari köfurum og huga þarf vel að loftnotkun. Gott er að miða við að eiga að lágmarki 2/3 eftir af lofti á kútnum þegar snúið er við ef þú ert byrjandi.
Bílastæði er við Hallvíkina.
Góður köfunarstaður fyrir byrjendur og lengra komna.
Dýpi: 45 metrar,
Köfunarréttindi: Advanced Open Water + Deep speciality 40 metrar.
Mælt er með að fólk hafi að lágmarki 30 Advanced Open Water kafanir áður en það kafar í El Grillo.
El Grillo heitir flakið af olíubirgðaskipi sem liggur rétt utan við byggðina á Seyðisfirði. El Grillo er engispretta á spænsku og borið fram El Gríljó, ekki er vitað af hverju skipið bar spænskt nafn.)
Skipinu var sökkt 16. febrúar árið 1944 af þýskum flugvélum. Skipið er um 9000 tonn af stærð. Skipið var vel vopnum búið, prýtt tveimur fallbyssum og fjórum loftvarnarbyssum auk fjögurra rakettubyssa sem sérstaklega voru ætlaðar til varnar gegn árásum steypiflugvéla.
Einnig voru djúpsprengjur og um borð en bandaríski herinn aðstoðaði lanhelgisgæsluna við að fjarlægja þær úr flakinu. Búið er að fjarlægja mikið af skotfærum um borð í flakinu en enn á búast við því að töluvert geti verið eftir af þeim víða um flakið.
Byggingarlag skipsins er líkt hefðbundnum Libertyskipum frá þessum árum. Á framenda skipsins er bakkinn en stýrishúsið er miðskips. Á aftari hluta skipsin er lágreist yfirbygging. þar má finna vélarrúm skipsins og vistarverur áhafnarinnar.
Ofan á brú skipsins eru um 27 metrar, en niður á vélarþilfar þar fyrir aftan eru um 30 metrar. Það má víða sjá línur og drauganet víða á skipinu þannig að ráðlegt er að horfa vel í kring um sig og fara varlega og hafa góða hnífa með í för.
Það er gjarnan dimmt yfir á köfunarstaðnum og skyggni getur verið slæmt þannig að ráðlegt er að vera með góð ljós.
Flakið er afskaplega vinsæll köfunarstaður en hafa þarf samband við hafnaryfirvöld á Seyðisfirði og fá leyfi til að kafa í flakið. Það er ekki alltaf veitt.
Töluverð olía hefur lekið úr flakinu seinustu ár.
Hentar reyndum köfurum með 30+ dýpri kafanir og fulla stjórn á floti og uppstigi.
Dýpi: 5-30 metrar +.
Köfunarréttindi: Open Water / Advanced Open Water.
Flekkuvík er fallegur köfunarstaður með stórbrotnu landslagi.
Hægt er að fara út í sjó á tveimur stöðum annars vegar frá ströndinni og hins vegar frá „klaufinni“ sem er lítil skora inn í landið.
Klaufin getur verið varasöm ef öldugangur er mikill og byrjendum er ráðið frá því að fara í klaufina nema með reyndari köfurum sem þekkja til aðstæðna.
Flekkuvík er á leiðinni til Voga. Ekinn er malarvegur að húsarústum en eftir það tekur við slóði sem er frekar illfær fólksbílum. Mælt er með að fara ekki á fólksbíl slóðann.
Flekkuvíkin er í eigu ríkisins en sveitarfélagið Vogar á landið sem liggur upp að Flekkuvíkinni.
Staðurinn hentar bæði byrjendum sem og reyndari köfurum.
Dýpi: 4-20 metrar.
Köfunarréttindi: Open Water.
Út af bryggjunni í Garði er frábær köfunarstaður fyrir byrjendur sem lengra komna.
Við langhlið bryggjunar er dýpið 3-6 metrar. Þar er gott að fara niður. Botninn er sandbotn í bland við þara. Ef kafað er meðfram bryggjunni og fyrir hornið á stutthlið bryggjunar er komið á dýpra svæði sem dýpkar svo eftir því sem lengra er farið.
Það er skemmtilegt landslagt í bland við sand og töluvert af fiskum og öðru sjávarlífi í Garðinum.
Makríll, Ufsi, Þorskur, Rauðspretta, Koli, Rauðmagi, Steinbítur, Marhnútur, Skötuselur og fleiri tegundir hafa sést þarna. Þarna sjást líka ýmsar krabbategundir, bertálknar og fleiri smádýr.
Gott er að fara út í um klukkutíma, einum og háflum fyrir háflóð þar sem hoppað er út í af bryggjunni og klifrað er upp stiga til að komast upp aftur. Þú þarft því að hafa styrk í það eða að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir til að ná búnaði uppúr áður en þú hoppar út í.
Straumur getur verið varasamur og það er mögulegt að þú þurfir að breyta köfunarplaninu ef það er mikill straumur þegar þú kemur fyrir hornið á bryggjunni.
Byrjendur ættu að halda sig á svæðinu nærri bryggjunni ef þeir eru ekki að kafa með reyndari köfurum.
Gæta þarf að flóðastöðu þegar farið er út í. Staðurinn hentar bæði byrjendum sem og reyndari köfurum.
Dýpi: 3-15 metrar.
Köfunarréttindi: Open Water.
Gullkistuvíkin hefur gríðarlega fallegt neðansjávarlandslag. Mikið líf er í víkinni og mikið af skel sem er hægt að tína sér til matar.
Galli við víkina er að einungis er hægt að komast þangað á bát núna þar sem hún liggur neðan við golfvöllinn á Kjalarnesi.
Úr víkinni er hægt að kafa meðfram ströndinni en flestum dugar að vera inni í víkinni sjálfri enda oft lyngt þar og lítill straumur.
Staðurinn hentar mjög vel fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna.
Bara hægt að komast á bát.
Dýpi: 15 metrar.
Köfunarréttindi: Open Water – hugsanlega Advanced, fer eftir aðstæðum.
Flak af fiskibát sem var sökkt vestan við Vestdalseyri í þeim tilgangi að geta kafað í.
Nánari lýsingu vantar. Ef þú hefur upplýsingar um þennan köfunarstað máttu senda þær á stjorn@kofun.is.
Dýpi: 5-15 metrar.
Köfunarréttindi: Open Water.
Hvítanes í Hvalfirði er herstöð frá styrjaldarárunum.
Á botninum við bryggjuna liggur landgönguprammi úr stáli. Hann er að miklu leiti sokkin í leir að aftan en framhlutinn skagar upp og liggurhlemmurinn að framan opinn.
Botninn er að mestu leiti leir þannig að smáhlutir og minjar úrstríðinu leynast oft djúpt í honum. Þarna má sjá leifar af kafbátagirðingunni.
Skyggni er oft slæmt þarna inni í firðinum en ár og lækir renna fram í sjó á þessu svæði.
Það er oft gott að kafa þarna á þeim tímum sem ekki eru leysingar eða miklir vatnavextir t.d. Í froststillum á veturna.
Þetta er staður sem hentar öllum köfurum.
Við bryggjuna er mikið líf og stórir og miklir krossfiskar. Frábært myndefni.
Staðurinn er ekki lengur aðgengilegur frá landi en hægt er að fara á bát að Hvítanesinu.
Hentar bæði byrjendum sem og reyndari köfurum.
Dýpi: 15 metrar.
Köfurnarréttindi: Open Water.
Pramminn sökk í siglingaleið á ytrihöfn Reykjavíkurhafnar. Þann 10. júlí árið 1927 var brugðið á það ráð að fá Þórð Stefánsson kafara til þess að sprengja flakið til að skipaumferð stafaði ekki hætta af því.
Allmargir menn voru að vinna við að sprengja flakið. Þórður kom sprengiefninu fyrir í hvert sinn, en fór upp að því loknu upp á kafarabátinn.
Vír lá frá sprengiefninu í bátinn, og þegar hann var kominn hæfilega langt í burtu var sprengt með rafstraum. Í þetta sinn hafði sprengingin mistekist. Var þá sótt lítið eitt af dýnamiti og ætlaði Þórður niður með það. En rétt í því að hann var að ljúka við að búa sig, sprungu dýnamítspatrónurnar sem í bátnum voru án nokkurrrar sjáanlegrar ástæðu. Þrír menn fórust við sprenginguna en Þórður slapp ómeiddur.
Inger Benedicte liggur á um 15 metra dýpi á leirbotni rétt undan Örfirisey í Reykjavík. Prammin er úr stáli.
Erfitt er að gera sér grein fyrir því hvernig pramminn hefur litið út í upphafi en hann virðist vera um það bil 40 m. langu og 6-7 m breiður.
Ekki mikið eftir af prammanum en þó má sjá stálplötur og bita sem liggja á botninum.
Hentar bæði byrjendum sem og reyndari köfurum.
Dýpi: 7-10 metrar.
Köfunarréttindi: Open Water.
Flak af heljarstóru seglskipi, 100 m á lengd og um 20 m á breidd. Nú er eftir smáræðis brak og akkeri.
Skipið strandaði við Hvalsnes á morgni hvítasunnudags, 26. júní árið 1881 á milli Hestakletts og Þórshafnar við Hafnir á suðurnesjum
Skipið var engin smásmíði, líklega með allra stærstu skipum sem til Íslands höfðu komið fram að því. Jamestown var smíðað í Richmond og hleypt af stokkunum í nóvember 1879.
Farmur skipsins var timbur og tókst bændum að bjarga mestu af því áður en skipið brotnaði við Hestaklett þar sem leyfar þess liggja enn.
Botninn er grýttur, klettar og möl með þaraskógi. Dýpið er aðeins um 7 metrar við klettinn og aðstæður til köfunar eru því góðar.
Þarna er eftir eitt akkeri og smábrak úr skipinu. Samskonar akkeri úr skipinu stendur nú við byggðasafnið á Höfnum.
Hestaklettur liggur fyrir opnu hafi og þarf því að kafa þarna í góðu sjólagi.
Hentar byrjendum í góðu sjólagi sem og reyndari köfurum.
Dýpi: 3-100+ metrar.
Köfunarréttindi: Open Water eða hærra fer eftir því hvað á að gera.
Hægt er að fara út í í Keifarvatni þar sem aðgengi er. Staðurinn hentar vel til æfinga og kennslu.
Botninn getur verið laus í sér og því siltast mikið upp ef komið er við botninn. Þetta á sérstaklega vel við í dýpri köfunum og á hverasvæðinu.
Þau sem hafa ekki góða stjórn á floti og nota ekki „frog-kick“ ættu ekki að kafa á hverasvæðinu.
Nýliðar ættu að fara með reyndari köfurum á hverasvæðið og passa að setja aldrei andlitið ofan í heitavatnsuppstreymið.
Hverasvæðið er á 12-15 metra dýpi og hentar vel Open Water köfurum sem hafa góða stjórn á floti.
Dýpi: 15-20 metrar.
Köfunarréttindi: Advanced Open Water + reynsla eða þekking af straumköfun.
Flak af 20 tonna rækjubát, Kolbrún ÍS-74 frá Ísafirði, steytti á skeri við Hrútey á Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi 11. apríl 1996.
Félagar úr Sportkafarafélagi Íslands fundu flakið af Kolbrúnu í félagsferð sennilega árið 2008. Þá var skrokkurinn skorðaður við klett þannig að stefnið var í sandinn og skuturinn upp við klettana.
Eftir að Mjóafjarðarbrúin var byggð þá jókst mjög straumur á þessu svæði og því er mælt með Advanced Open Water réttindum með einhverja reynslu af köfun í straumi.
Ekki er mælt með að nýliðar kafi í Kolbrúnu.
Athugið að það geta verið iður á leiðinni sem soga mann niður eða ýta manni upp. Mikilvægt er að kunna að bregðast við slíkum aðstæðum ef maður lendir í þeim. Best er að halda sig sem næst klettabelti sem leiðir út að Kolbrúnu.
Frásögn úr Morgunblaðinu.
MANNBJÖRG varð er 20 tonna rækjubátur, Kolbrún ÍS-74 frá Ísafirði, steytti á skeri við Hrútey á Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi.
Tveir menn, bræðurnir Arnar og Hannes Kristjánssynir, voru á Kolbrúnu, og var þeim bjargað um borð í björgunarbátinn Daníel Sigmundsson um tveimur klukkustundum síðar.
Það var flutningabílstjóri frá Ísafjarðarleið hf., sem varð var við neyðarblys frá skipverjunum er hann átti leið um Mjóafjörð. Hélt bifreiðastjórinn þegar að bænum Látrum og lét vita af því sem gerst hafði.
Sextán ára sonur hjónanna á bænum, Jón Sigmundsson, lagði þegar af stað með trébát sem stóð á hlaðinu og hugðist sigla til skipbrotsmannanna.
Þegar niður að sjó var komið var utanborðsmótor bátsins settur í gang en hann drap fljótlega á sér og tók pilturinn því til þess ráðs að róa til mannanna, hátt í kílómetra leið.
Þar sem festing fyrir aðra árina var brotin, réri pilturinn með einni ár og var kominn að mönnunum um svipað leyti og björgunarbáturinn Daníel Sigmundsson og rækjubáturinn Guðrún Jónsdóttir, sem var einnig að veiðum í Djúpinu.
Mjög mikill straumur þarna og best að fara á fallaskiptum.
Staðurinn hentar ekki byrjendum.
Dýpi: 3-12 metrar
Köfunarréttindi: Open Water
Langisandur á Akranesi er góður byrjendastaður en hentar líka ágætlega fyrir myndatökur og þá sérstaklega macro.
Sandbotn í blandi við kletta og þara.
Frábær köfunarstaður fyrir byrjendur.
Dýpi: 0-4 metrar.
Köfunarréttindi: Open Water.
Flak hákarlaskipsins Lata-Brúns, sem sökk 1928 þar sem hann lá bundinn við Svíastaurana svokölluðu syðst á Pollinum á Siglufirði.
Lati-Brúnn var eitt af fyrstu þilskipum Siglfirðinga og byggður á Eyrinni 1857 af Jóhanni Kröyer í Höfn. Hann gekk til hákarlaveiða til 1910 en eftir það notaður til síldveiða í allmörg ár og síðast var hann notaður sem slógprammi í höfninni.
Hann sökk 1928 þar sem hann lá bundinn við Svíastaurana svokölluðu syðst á Pollinum.Flakið fann Erlendur Guðmundsson þann 1. júlí 2011.
Hentar bæði byrjendum sem og reyndari köfurum.
Dýpi: 10 metrar
Köfunarréttindi: Open Water
Stefnið af flutningaskipinu Laxfoss, sem var hlutað í sundur og átti að draga til Reykjavíkur. Á leiðinni sökk stefni Laxfoss fyrir utan Kjalarnes.
Botninn er malarbotn og eru klappir á svæðinu. Ekki er mikill gróður á flakinu og er stefnið meira og minna opið þannig að lítil hætta stafar af því.
Hentar bæði byrjendum sem og reyndari köfurum.
Dýpi: 30 metrar.
Köfunarréttindi: Advanced Open Water.
Lockheed Ventura er tveggja hreyfla herflugvél sem fórst stuttu eftir flugtak á Reykjavíkurflugvelli á árunum síðari heimstyrjaldarinnar.
Flugvélin brotlenti í sjónum og fórst öll áhöfn hennar. Bændur á svæðinu krökuðu og veiddu upp töluvert af flugvélinni en ál var mjög verðmætt á þessum árum. Það er ekki milkið eftir af flakinu í dag og er helst að sjá mótorana með skrúfublöðum sem liggja með nokkru millibili og svo hjólastell flugvélarinnar. Allur þynnri málmur og grindarefni er horfið.
Staðurinn hentar reyndari köfurum.
Dýpi: 12 metrar.
Köfunarréttindi: Skipið er friðað og óheimilt að kafa í það.
Pourqoui Pas? var þriggja mastra seglskip með gufuvél alls um 400 rúmlestir að stærð.
Skipið var eign hins heimsfræga vísindamanns dr. Jean Charcot og smíðað árið 1908 að mestu eftir hans fyrirsögn.
Skipið hafði verið annað heimili Dr. Charcots um 30 ára skeið en hann var 69 ára er skipið fórst. Hann hafði hlotið margvíslegan heiður fyrir rannsóknarstörf og vísindaafrek um borð í þessu skipi. Af 42 manna áhöfn, komst aðeins einn maður lífs af.
Flakið liggur á um 12 metra dýpi í skerjagerðinum, á grýttum botni.
Nokkuð er um þaraskóga sem vaxa á hörðum botninum.Fljótlega eftir að skipið fórst var kafað niður að því og ýmsum munum bjargað. Þá rak töluvert brak og muni úr skipinu á fjörur. Miklu, af þvi sem fannst, var komið til franskra yfirvalda. Töluvert mun þó vera til af munum á söfnum hérlendis og all nokkrir munir eru hjá einstaklingum.
Um tíma var ekkert hugað að flakinu. En seinna fór kafarinn Andri heitinn Heiðberg að leita að því og kafaði töluvert niður að því um tíma og fann meðal annars tvö af þremur brotum úr skipsklukkunni.
Dýpi: 22 metrar.
Köfunarréttindi: Advanced Open Water.
Flak af fiskiskipi sem sökkt var til æfinga fyrir kafara SVFÍ og LHG.
Sigurjón Arnlaugsson var fiskiskip sem var síðast gert út frá Hafnarfirði. Því var lagt upp úr 1990 og gaf eigandinn Slysavarnafélagi Íslands og Landhelgisgæslunni skipið til að sökkva því til æfinga fyrir kafara SVFÍ og LHG.
Flakið liggur nú á milli Lundeyjar og Þerneyjar á Kollafirði.
Alllangur tími fór í að fá leyfi fyrir því að sökkva skipinu en þegar það var komið í gegn var hafist handa við að hreinsa olíu og ýmislegt annað úr skipinu.
Því var sökkt 1994, með því að sprengja stykki úr bakborðssíðunni. Gatið er um 2 metrar á hæð og um 3 metrar á breidd.
Síðan skipinu var sökkt hefur mikið af lífi safnast á og í skipið, annars var þetta malarbotn þar sem ekkert þreifst.
Hafið í huga að skyggni getur verið slæmt þarna, bæði vegna sanddæluskipa og leysinga.
Varhugavert er að fara inn í skipið vegna þess hve gangar og hurðar eru þröngar. Einnig geta verið línur og girni utan á skipinu, því þarna eru oft trillur að veiðum.
Hentar reyndari köfurum.
Dýpi: 2-58 metrar.
Köfunarréttindi: Open Water + Þurrgallaréttindi.
Greiða þarf aðstöðugjald til Þjóðgarðsins og fylgja þeim fyrirmælum sem hafa verið sett.
Einn fallegasti og vinsælasti köfunarstaður á Íslandi. Vatnshitinn í Silfru er nokkuð jafn 2-4°C allt árið um kring. Varla er hægt að finna þann stað sem býður betra skyggni en Silfra. Útsýnið er nánast óendanlegt 150m+.
Tvímælalaust einn af flottustu köfunarstöðum í heimi. Staðurinn býður upp á góðar aðstæður fyrir kafanir af öllum toga. Þessi kristaltæra gjáer heillandi og hefur mikið aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn.
Óleyfilegt er að fara niður í hellana sem geta teigt sig niður á 59m.
Ráðlagt er að kafa með aðila vönum Silfru í fyrsta skiptið. Rétt er að benda á að í tæru vatni líkt og Silfru er auðvelt að finna til lofthræðslu þar sem skyggnið er gott.
Gott er að fylgjast vel með á hvaða dýpi kafað er.
Köfun í þjóðgörðum lúta ákveðnum reglum og ber að ganga vel um náttúruna og umhverfið!
Fylgja þarf reglum þjóðgarðsins um 18 metra hámarks köfunardýpt.
Hentar bæði byrjendum með góða stjórn á floti sem og reyndari köfurum.
Dýpi: 16 metrar.
Köfunarréttindi: Open Water + köfunarreynsla.
Standard er flak af skútu sem sökk í pollinum á Akureyri árið 1917. Flakið er úr tré og er það um ca 60 metrar að lengd.
Skútan liggur á leirbotni á skjólgóðum stað og hefur það vafalaust átt þátt í varðaveita flakið.
Enn er skrokkmynd á flakinu en viðurinn í skrokk skipsins er orðinn nokkuð gisinn. Skrokkur skipsins er þakinn sæfíflum.
Hentar bæði byrjendum sem og reyndari köfurum.
Dýpi: 18-22 metrar (Litlu strýturnar/Arnarnesstrýturnar)
Köfunarréttindi: Open Water
Dýpi: 75 metrar + (Stóru stýturnar)
Köfunarréttindi: Advanced Open Water + umtalsverð reynsla í Blue Water köfun sem gerir ekki ráð fyrir botni.
Svæðið er friðlýst. Hafa þarf samband við umsjónarmann svæðisins, Erlend Bogason, ef kafa á í strýturnar frá eigin báti.
Netfang: strytan@strytan.is
Sími:+354 862 2949
Strýturnar eru mikilfengleg fyrirbrigði spýta 70°C heitu ferskvatni sem blandast sjónum og skapar þægilega heitt vatn, sem dregur að sér fjölbreytt lífríki.
Arnarnesstrýtur – litla strýtan
Klettur með hitauppstreymisstrýtum í. Botn í kring er sandbotn. Þarna er mikið líf og fiskar geta verið ágengir, sérstaklega steinbíturinn Stefanó sem talið var í fyrstu að væri kvendýr og því oft kölluð Stefanía.
Mikið myndefni er á Arnarnesstrýtu og meðal fiska eru þorskur, flatfiskar, steinbítar og rauðmagar. Sæfíflar eru tignarlegir og litirnir á gróðri og sjávardýrum eru stórkostlegir.
Það er auðvelt að gleyma sér og því betra að fylgjast vel með bæði botntíma og loftnotkun.
Hentar bæði byrjendum sem og reyndari köfurum.
Stóru strýturnar
Þegar kafað er niður að Strýtunni er efsti hluti hennar á um 12-15 metrum. Strýtan liggur hinsvegar niður á um 75+ metra dýpi.
Það er ekki fyrir hvern sem er að heimsækja þennan stað, því miður. Þarna er oft á tíðum straumþungt við yfirboðið og dýpið svo mikið að mikilvægt er að kunna að halda hlutlausri flotjöfnun á meðan á köfun stendur, sem sagt einungis fyrir reynda kafara.
Til þess að komast þangað verða kafarar jafnframt að hafa bát og einhvern með í för sem er kunnugur staðháttum.
Köfun í friðlýstum svæðum lúta ákveðnum reglum og ber að ganga vel um náttúruna og umhverfið!
Í miðjum Eyjafirðinum á 65 metra dýpi er hver sem út streymir heitt vatn ríkt af steinefnum. Þegar þessi steinefni komast í snertingu við kaldan sjóinn sem umleikur hverinn verður hröð storknun steinefnanna og í tímans rás hefur myndast kalksteinssúla sem teygir sig frá 65 metrum upp á um 12 metra.
Tilvera þessa hverasvæðis hefur löngum verið þekkt vegna þess að í logni og sléttum sjó má greina á yfirborði sjávar ferskvatnið sem streymir frá hverasvæðinu. Það var hins vegar ekki fyrr en 1997 að umfang þessa svæðis var kannað af fyrirtækinu Prockarya. Fyrirtækið, hafði aðsetur í Reykjavík og vann að rannsóknum á örverum, sendi niður þýska kafbátinn Jago til rannsóknar á hverasvæðinu, söfnunar sýna og mælinga á hitastigi og magni þess vatns er streymir út um hverasvæðið. Tilgangur rannsóknanna var að leita að hitakærum örverum sem nýtast fyrirtækinu til framleiðslu á ensímum.
Rannsakaðar voru tvær hverastrýtur sem standa eins og strompar frá botninum, 25 og 33 metra háar. En það var ekki fyrr en ári síðar eða 1998 að sú strýta sem við sportkafarar þekkjum og hyllum sem mest fannst.
Það ár héldu rannsóknir fyrirtækisins áfram á þessu svæði og í stað þess að notast við kafbát var Erlendur Bogason kafari fenginn til að kafa um svæðið, afla sýna og staðsetja tækjabúnað til söfnunar á miklu magni vatns frá hverasvæðinu. Erfitt hafði reynst að nota kafbátinn til þeirra verka.
Það var við þessar rannsóknir sem Erlendur uppgötvaði að strýturnar væru í raun og veru þrjár, en ekki tvær eins og áður var talið, og reyndist þriðja strýtann 45 metrar á hæð.
Aldur strýtanna var ákvarðaður með kolefnagreiningu og bendir sú greining til þess að vöxtur þeirra hafi hafist fyrir u.þ.b. 11.000 árum.
Þessir öldnu risar verða að njóta virðingar okkar sem eigum þess kost að heimsækja þá og til þess að undirstrika þá ábyrgð sem að okkur snýr voru strýturnar friðlýstar í mars árið 2001.
Allir kafarar sem kafað hafa í fallegum kóralrifum þekkja þær umhverfisreglur sem að þeim lúta og eru settar til að forða gersemunum frá tortímingu. Segja má að í grundvallaratriðum gildi sömu reglur um strýturnar þrjár. Þessar reglur eru okkar reglur, og enginn á að þurfa að tilskipa þær því þær eru okkur til hagsbóta.
Erlendur Bogason vinnur enn með rannsóknarfólki bæði innlendu og erlendu að rannsóknum á strýtunum en hann er jafnframt verndari og umsónarmaður svæðisins.
Enginn er að reyna að banna köfun við strýturnar heldur stendur til að bæta aðgengi að þeim. Þessi staður er engum líkur og vonandi kemur hann til með að haldast jafnflottur og hann er í dag.
Hentar reyndari köfurum.
Dýpi: 15-18 metrar.
Köfunarréttindi: Open Water. En líkt og með flesta aðra köfunarstaði er nauðsynlegt að fara með kunnugum.
Það getur verið nokkuð skemmtilegt að kafa í sykurskipið. Það tekur smástund að sigla á staðinn og yfirleitt verður ferðin hin besta skemmtun.
Töluvert er um dýralíf á staðnum en flakið sjálft er í þúsund pörtum og dreifður. Það er ekkert eftir af skrokki skipsins.
Skipið sökk 24. janúar 1941 kl 11.00 Stærð þess er 7200 tonn og er staðsett við Leiruboða.
Þetta er þekktasta skipsflak á Íslandi og vart til sá íslenskur sportkafari sem ekki hefur kafað í það.
Lítið er eftir af sjálfu skipinu annað en skrúfan og gufuketillinn og brak sem ekki er hægt að staðsetja hvar hafi verið á skipinu.
Ætti frekar að kallast brak en flak.
Skipið var að koma frá Baltimore í Bandaríkjunum á leið til Finnlands. Það var á leið til farmskoðunar ásamt breskum herskipum sem fylgdu því þegar það strandaði mjög líklega vegna kolareyks frá Reykjavík og vegna þess að ljós við innsiglingarleiðina voru slökkt. Það var eins og nafnið gefur til kynna fullt af sykri.
Það var gott veður þennan dag en þoka. Allir björguðust sem á skipinu voru og flúðu land strax og því var við komið og skildu skipið og sykurinn eftir. Sykrinum var bjargað af íslenskum skipum og bændum í kring alls 1200-1300 tonn.
Til gamans má geta að akkeri sem var á skipinu stendur nú sem minnisvarði fyrir utan hús Sportkafarafélags Íslands í Nauthólsvík.
Hentar bæði byrjendum sem og reyndari köfurum.
Dýpi: 10 metrar.
Köfunarréttindi: Open Water.
Tryggvi er flak af dýpkunarpramma sem liggur á Viðeyjasrundi. Tryggvi hefur stundum verið kallaður Grafvélin.
Hentar bæði byrjendum sem og reyndari köfurum.
Dýpi: 36 metrar.
Körunarréttindi: Advanced Open Water + Deep.
Flak af flutningaskipi sem sökk örskammt fyrir utan Akranesbauju 12. febrúar 1974. Skrokkurinn er mjög heillegur.
Það getur verið töluverður straumur þarna og því gott að fara niður með akkerislínu frá báti.
Hentar reyndari köfurum.
Dýpi: 16 metrar.
Köfunarréttindi: Open Water.
Flakið liggur á botninum nálægt Skarfaskeri í Viðeyjarsundi á um 16 metra dýpi. Flakið er af afturbyggðum, opnum stálbát sem er rúmir 8 metrar á lengd og tæpir 4 metrar á breidd.
Flakið er vélbátur og hefur skrúfuhlíf hefur verið utan um skrúfuna. Skrúfan fannst þó ekki og er stefnisrörið tómt.
Flakið er að miklu leiti sokkið í leirkenndan botninn að framanverðu en afturhlutinn stendur vel upp úr botninum.
Yfirbyggingin að aftanverðu er einnig úr stáli. Á henni er einn gluggi sem snýr aftur.
Yfirbyggingin er vel opin að framaverðu og má leiða líkum að því að gengið hafi verið inn í hana að framanverðu frá dekkinu, í gegn um tréhurð sem nú er horfin.
Hentar bæði byrjendum sem og reyndari köfurum.
Dýpi: 70 metrar.
Köfunarréttindi: Tech deep.
Flak af kúfiskveiðiskipinu Æsu ÍS-87 frá Flateyri sem sökk í Arnarfirði 25. júlí 1996.
Æsan fórst í Arnarfirði á vestfjörðum árið 1996 25. júlí. Það var sléttur sjór og mjög gott veður.
Það fórust tveir menn og er aðeins annar þeirra fundinn. Það var kafað eftir mönnunum og voru það íslenskir og breskir kafarar sem gerðu það.
Hentar reyndari tækniköfurum.
Dýpi: 4-22 metrar.
Köfunarréttindi: Open Water.
Einn vinsælasti köfunarstaðurinn í nágrenni við höfuðborgarsvæðið.
Köfunarstaðurinn við Óttarstaði er fallegur jafnt á yfirborði sem neðansjávar. Stunduð var útgerð þarna fram á síðari hluta tuttugustu aldar og rennan þar sem bátarnir voru sjósettir er góð leið niður í fjöruna fyrir kafara.
Undir yfirborðinu allt niður á 2ja-3ja metra dýpi er mistur sem myndast þegar ferskt grunnvatn sem rennur úr hrauninu blandast sjónum. Þarna erfallegur skeljasandsbotn sem lýsir upp staðinn og skapar góð birtuskilyrði. Ekki er óalgengt að lenda í góðu skyggni á þessum stað og þegar komið er 50 metra út frá ströndinni tekur við steinbotn meðstórum þarastönglum sem minna á tré í skógi.
Milli þessara þarastönglaer svo að finna ógrynni dýralífs, marhnúta, kola, krabba og flestar af þeim lífverum sem kafarar þekkja svo vel.
Besta dæmið um hversu góður köfunarstaður þetta er var þegar nokkrir kafarar mættu háhyrningskálf á þessu svæði. Kálfurinn var hinn forvitnasti en lét þó kafarana alveg óáreitta og var þessi lífsreynsla með þeim magnaðri sem um hefur heyrst frá köfurum á Íslandi.
Þetta er án efa einhver sá alskemmtilegasti köfunarstaður í nágrenni Reykjavíkur hvort sem menn eru vanir eða eru að stíga sín fyrstu skrefí sportinu.
Steinbotn heldur stöðugu dýpi svona 100-120metra út frá ströndinni en svo tekur við brekka sem liggur niður á 20 metra dýpi.
Út frá henni tekur svo við sandauðn sem er lítið spennandi.
Ekki er sniðugt að halda langt út á hana þar sem sundið til baka geturverið langt og leiðigjarnt ef kafarinn neyðist til að þreyja það á yfirborðinu sökum loftleysis.
Best er að fara með kunnugum á þennan stað í fyrsta skipti.
Hentar bæði byrjendum sem og reyndari köfurum.